Af hverju er framkvæmdinni skipt í fyrri og síðari áfanga?

Þegar Sigtún kynnti fyrst hugmyndir sýnar um nýjan miðbæ í gömlum og klassískum stíl, í mars 2015, voru allir flokkar í bæjarstjórn sammála um að veita okkur vilyrði fyrir úthlutun miðbæjarlóða, gegn því að verkefnið – ef að yrði – væri fullfjármagnað.

Á þessum tíma gengu hugmyndirnar út á að byggja 12-13 hús, samtals um 4.000 fermetra, þar sem gróflega áætlaður kostnaður var um eða rétt yfir 1 milljarður króna. Þessi einróma stuðningur allra bæjarfulltrúa var mikilvæg hvatning og grundvallar forsenda þess að hefjast handa við þróun verkefnisins í samstarfi við bæjarstjórn Árborgar og starfsfólk bæjarins. Ef þessi stuðningur og þetta vilyrði fyrir lóðum hefði ekki legið fyrir, þá hefði hugmynda- og þróunarvinna aldrei hafist af alvöru.

Við tók tveggja ára hugmynda- og þróunarvinna. Í henni fólst margþætt samvinna fjölmargra aðila til að gera verkefnið að veruleika. Vinna arkítekta, verkfræðinga og annarra hönnuða þarf t.d. að taka mið af þörfum og fjárhagslegri getu væntanlegra notenda, leigjendum og viðskiptavinum þeirra.

Bærinn er hannaður fyrir heimamenn. Að þar verði verslun, veitingar og þjónusta. En tilvonandi veitinga- og verslunareigendur lögðu áherslu á að þarna þyrftu einnig að vera ferðamenn, til að reksturinn einfaldlega bæri sig. Ef ferðamenn eiga að koma á staðinn, þá þurfa þeir afþreyingu og dvalarstað. Og til þess að bærinn vaxi og dafni þá þarf að verða til blómlegt mannlíf og skemmtilegt andrúmsloft, sem felst fyrst og fremst í jákvæðu samspili og samskiptum heimamanna og gesta.

Allt helst þetta í hendur. Og það kom fljótt í ljós að upphafleg hugmynd gekk einfaldlega ekki upp. Óskir, þarfir og hagsmunir allra hlutaðeigandi náðu ekki saman. Þeir sem eiga í hlut eru bæjarbúar, væntanlegir innlendir og erlendir gestir, tilvonandi leigutakar, fjárfestar, lánastofnanir og Sigtún Þróunarfélag.

Til að gera nýjan miðbæ á Selfossi að raunverulegum möguleika þurfti að stækka og útvíkka hugmyndina. Það var og gert, í náinni samvinnu við bæjarstjórn. Niðurstaða þessarar vinnu er sú hugmynd sem kynnt er rækilega á þessum vef og er lögð á borðið í komandi íbúakosningum.

Þessi hugmynd er fjórfalt stærri að umfangi heldur en sú hugmynd sem kynnt var í mars 2015 og skyldi vera fullfjármagnuð ef af yrði. Það verkefni er einmitt sá hluti sem er í dag skilgreindur sem fyrri áfangi. Hann er fullfjármagnaður.

Það er einfaldlega ekki hægt að fjármagna 4,5 milljarða fasteignaverkefni á Selfossi í einum áfanga. Og þó það væri hægt þá væri það einfaldlega óskynsamlegt og áhættusamt. Ákvörðun um að áfangaskipta framkvæmdum var tekin af hagkvæmnisástæðum og í samráði við lánastofnanir. Betra er og áhættuminna að hefja framkvæmdir og leigja út hluta húsanna eftir að þær eru hafnar, en að leigja allt út fyrirfram.

Þegar framkvæmdir á fyrri áfanga hefjast – og það er þannig orðið formlega ljóst að af framkvæmdinni verður – þá munum við ljúka fjármögnun á síðari áfanga. Leigusamningar fyrir annan áfanga verða gerðir samhliða uppbyggingu þess fyrsta og framkvæmdir við hann verða í beinu framhaldi.