Af hverju er ekki haldin hugmyndasamkeppni og útboð fyrir miðbæjarsvæðið í heild?

Þetta er spurning sem er fyrst og fremst bæjaryfirvalda að svara. En það hafa nú þegar verið haldnar samkeppnir um miðbæjarsvæðið, oftar en einu sinni. Þær skiluðu ekki árangri, af því þegar á reyndi voru fjárfestar og framkvæmdaðilar ekki tilbúnir að byggja í samræmi við sigurtillögurnar. Þess vegna hefur svæðið staðið autt.

Það er mikil einföldun að halda því fram að hægt sé að gera öðruvísi miðbæ eftir gildandi skipulagi. Það er einfaldlega svo margt við slíkan málflutning sem stenst ekki skoðun.

Ef sveitarfélagið sjálft ætlar ekki að fjármagna og/eða framkvæma slíkar hugmyndir, þá hljóta og verða þeir sem ætla að gera það að hafa eitthvað um hugmyndirnar að segja.

Það sem er einstakt við okkar verkefni er að það er fullunnið. Fyrir liggur hönnun alls hverfisins og allra húsanna og fjármögnuð framkvæmdaáætlun. Undirbúningur hefur staðið í rúm þrjú ár, og hægt væri að opna fyrstu verslanir og veitingastaði á næsta ári, ef framkvæmdir gætu hafist.