Hvaða áhrif hefur uppbyggingin á gamla byggð á Eyrarbakka og Stokkseyri?

Engin hætta er á því að uppbygging á Selfossi taki eitthvað frá öðrum byggðum innan Árborgar. Þvert á móti skapar hún ný tækifæri.

Selfoss er af sögulegum, landfræðilegum og viðskiptalegum ástæðum ákveðinn miðpunktur sveitarfélagsins. Þegar til stendur að flytja bæði brú og veg er Árborgarsvæðið allt í hættu á að verða úr leið. Þess vegna þarf að styrkja og efla miðbæ Selfoss og skapa þar nýtt aðdráttarafl.

Við höfum þá sýn að verkefnið á miðbæjarreitnum skapi ný tækifæri fyrir fjölmarga aðila á Árborgarsvæðinu. Enda mun fjölgun ferðamanna sem hafa viðdvöl á Selfossi gefa færi að beina sjónum þeirra að Árborgarsvæðinu öllu í miklu ríkara mæli en hingað til; ströndinni með opinni sjónlínu til Suðurskautsins, gamalli byggð á Stokkseyri og Eyrarbakka, sögustöðum, fuglalífi og náttúruskoðun við Ölfusárósa.

Það er hægt að virða söguna, hefðirnar og verkþekkingu fyrri kynslóða með ýmsum hætti. Margt hefur verið vel gert á Eyrarbakka og Stokkseyri í þeim efnum og öflugur miðbær á Selfossi mun styrkja það starf. Allir þekkja að timburhús þurfa viðhald, endurgerð og aðlögun að nýjum tímum og í tímans rás geta þau tekið miklum breytingum og varla nokkur spýta í þeim upprunaleg, enda þótt yfirbragð og stíll haldist að mestu óbreyttur. Hugmyndafræði er í góðu samræmi við það hvernig hefur verið staðið að endurgerð byggðar í gömlum stíl víða í borgarkjörnum í Evrópu og Bandaríkjunum.