10 einkenni góðra miðbæja

Við þróun miðbæjarins á Selfossi höfum við fengið aðstoð sérfræðinga á mörgum sviðum, svo sem arkitektúr, skipulagsmála, verkfræði, hönnun, markaðsfræði, hagfræði og fl. og stuðst við rannsóknir sem gerðar hafa verið á því hvaða þættir einkenna vel heppnaða miðbæi, jafnt í smábæjum sem stærri borgum.

1. Fyrir heimamenn

Miðbæi verður að hanna og þróa með þarfir heimafólks í huga. Gestir vilja vera þar sem heimamenn eru. Þess vegna er lykilatriði að byggja kraftmikinn og lifandi miðbæjarkjarna, með margvíslega þjónustu og starfssemi fyrir Selfyssinga og aðra íbúa í Árborg. Sé það vel gert munu utanaðkomandi gestir, íslenskir og erlendir, sækja í andrúmsloftið, mannlífið og menninguna.

2. Ein heild

Góða miðbæi þarf að hugsa sem eina heild. Þar fer saman hönnun og skipulag, hugsjón og skýr mörkun fyrir kynningarstarf. Vel heppnaðir bæir búa yfir sérstöðu og andrúmslofti og afþreyingu sem ekki er hægt að upplifa annarsstaðar.

3. Sérstaða

Góður miðbær hefur að minnsta kosti einn eðlisþátt sem skapar mikla sérstöðu. Byggingu, minnisvarða, listaverk, sýningu eða upplifun, sem aðeins er hægt að sjá eða upplifa þar. Í tilviki miðbæjar Selfoss sjáum við Gamla Mjólkurbúið vera í miðpunkti, með þeirri starfsemi sem þar verður. Og svo að sjálfsögðu öll hin húsin.

4. Þægileg útivera

Í góðum miðbæjum er lögð áhersla á opin aðlaðandi svæði þar sem allir eru velkomnir. Græn svæði og torg. Í miðbæ Selfoss verða þrjú skjólgóð torg, þar sem gert er ráð fyrir uppákomum, listaverkum, leiktækjum og ýmsu fleiru. Miðbærinn er einnig hannaður þannig að hann myndi eina heild með Sigtúnsgarði.

5. Fjölbreytni

Nauðsynlegt er að hafa heildaryfirsýn og stýra starfseminni. Að blanda í réttum hlutföllum saman íbúðum, gististöðum, skrifstofum, veitingastöðum, bílastæðum, verslunum, söfnum og sýningum, o.s.frv. Heildin þarf að standa saman af ólíkum rekstraraðilum, þar sem stærri aðilarnir vega upp þá minni. Þannig næst fjölbreytileikinn.

6. Heimili fólks

Mjög mikilvægt er að fólk búi í miðbæjum og starfi þar. Þess vegna eru fjölbreyttar íbúðir nauðsynlegur hluti af heildarmyndinni, með tilheyrandi þjónustu og afþreyingu fyrir þá sem þar búa. Raunveruleg búseta í miðbænum skiptir einnig miklu fyrir andrúmsloftið og stemninguna.

7. Líf á kvöldin

Í vel heppnuðum miðbæ er opnunartími rekstraraðila samræmdur og skilyrðum háður. Mestu skiptir að miðbæir loki ekki dyrum sínum klukkan 17:00 síðdegis, því gestir dvelja helst þar sem það er eitthvað að hafa fyrir stafni um og eftir kvöldmatarleytið. Það er þá sem meirihluti allrar neyslu miðbæjargesta, í verslun, mat og drykk, á sér stað. Þegar staðsetning á ráðstefnu er valin, þá er það yfirleitt möguleg kvöldafþreying sem hefur mest áhrif á staðarval. Lengri, samræmdur opnunartími skiptir miklu máli.

8. Aðlaðandi hönnun

Í vel heppnuðum miðbæjum er upplifun gangandi vegfarenda lykilatriðið. Útlit húsa og gatna og torga þarf einfaldlega að vera áhugavert, snyrtilegt og skemmtilegt. Allar merkingar og skilti lúta föstum og fyrirfram ákveðnum stílbrögðum, sem passa við heildarmyndina. Þar ríkir líka hugmyndaauðgi og vandvirkni í umhverfisfrágangi á borð við gróður og blóm við götur- og gangstéttir.

Listræn starfsemi er nauðsynleg og þarf að vera sjálfsagður hluti miðbæjarins og eitt af því sem gerir hann heillandi. Það gerist ekki að sjálfu sér. Allt þetta þarf að vera skipulagt og framkvæmt í samstarfi við íbúa og rekstraraðila miðbæjar.

9. Stöðugt markaðsstarf

Góðir miðbæir eru markaðsdrifnir og með bakland sem sinnir því starfi af alúð og metnaði. Það dugar ekki bara að byggja hús og sjá svo til. Í nútímanum þarf að fylgja því eftir með fjármunum og hugmyndaauðgi í menningarstarfsemi, markaðs- og kynningarstarfi í samstarfi margra aðila.

10. Hugsjón

Þeir sem standa að uppbyggingu, þ.e. fjárfestar og bæjaryfirvöld, þurfa að búa yfir þolinmæði. Þetta er langtímaverkefni. Þeir sem leggja til fjármagnið sem þarf til að koma nýjum miðbæ á laggirnar þurfa að hafa hugsjón um framúrskarandi miðbæ. Slík hugsjón, metnaður og innblástur smitar út frá sér og er nauðsynleg í verkefnum þegar bæir ganga í endurnýjun lífdaga.