Gamla Mjólkurbúið

Stórkostleg bygging Guðjóns Samúelssonar verður endurbyggð í nýjum miðbæjarkjarna. Húsið verður vagga matarmenningar og höfuðvígi íslenska skyrsins.

Mathöll með nokkrum minni veitingastöðum

Með stórum kjallara og tengingum við önnur hús við torgið mun gamla mjólkurbúshúsið verða miðstöð fjölbreyttrar starfsemi. Skyrið og mjólkin verða í aðalhlutverki, en margskonar önnur matvara verður í boði, auk listviðburða og samkomuhalds.

Sýning með alþjóðlegt aðdráttarafl

Við höfum mikla trú á sýningu um íslenska skyrið og teljum að það muni laða að sér fjölda gesta á hverju ári. Til eru fjölmörg söfn og sýningar víða um heim sem ganga út á að miðla hverskyns matarmenningu á margbreytilegan hátt. Til eru mjólkursöfn, bjórsöfn, vínsöfn, og svo framvegis. Skyrsafn yrði það fyrsta sinnar tegundar.

Táknmynd um þéttbýlismyndun á Selfossi

Mjólkurbú Flóamanna við Asturveg á Selfossi tók til starfa 5. desember 1929. Það var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins.

Húsið var  glæsilegt, en var orðið of lítið tuttugu árum eftir að það var reist. Húsið vék fyrir nýju mjólkurbúi sem byggt var á grunni þess á árunum 1954-1955 og stendur enn.

Þessi stílhreina steinsteypta bygging er horfin táknmynd um þéttbýlismyndun á Selfossi. Nú rís hún aftur í nýjum miðbæ Selfoss.

Mjólkurbúið verði vettvangur matarupplifana

Sigtún og MS hafa gert samkomulag um rekstur sýningar og safns um íslenska skyrið í Gamla Mjólkurbúinu. Ari Edwald, forstjóri MS, segir mikil tækifæri felast í nýja miðbænum á Selfossi.

„Gamla mjólkurbúið var falleg bygging og það felast gríðarlegir möguleikar í endurbyggingu þess. Við höfum háleitar hugmyndir um kynningu á íslenska skyrinu í húsinu. Þetta verður vettvangur matarupplifana, glæsilegrar sögusýningar og viðburða af ýmsu tagi. Ef hugmyndir okkar ná fram að ganga verður þetta staður sem margir vilja heimsækja, heimamenn jafnt sem ferðamenn,“ segir Ari.