Fell

Ísafirði, 1905-1946

„Ægilegur eldsvoði á Ísafirði. Hjón, tvö börn og unglingspiltur farast“ var forsíðufyrirsögn ísfirska blaðsins Skutulsins hinn 6. júní árið 1946. Árla morguns þremur dögum áður kviknaði eldur í einu glæsilegasta húsi bæjarins, Felli við Hafnarstræti 3. Um fimm leytið höfðu tveir lögreglumenn gengið framhjá húsinu án þess að verða nokkurs varir. Örfáum mínútum seinna áttu aðrir vegfarendur leið hjá eftir velheppnaða sjómannadagsskemmtun, þegar heyrðust hróp og köll innan úr húsinu. Flýttu þeir sér inn til að athuga málið en þá þegar var eldurinn í forstofu miðhæðarinnar orðinn það mikill að lengra varð ekki komist. Brann húsið á innan við klukkutíma með þessum hörmulegu afleiðingum.

Árin í kringum aldamótin 1900 voru mikill uppgangstími á Ísafirði og stóðu útgerð og verslun í miklum blóma. Ásgeirsverslun hafði þá þegar verið starfrækt í bænum í rúm 50 ár en það var t.d. fyrir tilstuðlan hennar sem fyrsta símalína landsins var lögð á Ísafirði og einnig keypti hún fyrsta stóra millilandaskip landsmanna. Árið 1902 var svo fyrsta vélin sett í fiskibát í Hnífsdal og hófst þá vélbátaútgerð á Íslandi. 

Uppgangi þessum fylgdi að sjálfsögðu fólksfjölgun og settust t.d. margir iðnaðarmenn að í bænum. Einn þeirra var stórhuga ungur maður, Ragúel Árni Bjarnason (1878-1952), húsasmíðameistari fæddur í Bolungarvík. Hann hafði lært í Noregi þar sem hann kynntist ýmsum nýjungum og átti hann t.d. þátt í að innleiða hinn norska sveitser-stíl og einnig valmaþök í íslenska húsagerð en hann flutti aftur til Noregs árið 1907. Á þeim örfáu árum sem Ragúel bjó á Íslandi tók hann að sér að teikna og byggja nokkur hús á Ísafirði, þ.á m. Félagsbakaríið við Silfurgötu 11 og Ölduna við Fjarðarstræti 38 sem standa enn. Glæsilegasta húsið sem hann byggði í bænum er án efa svonefnt Strandshús, byggt 1905 fyrir Norðmann, Strand að nafni. Strand bjó þar hins vegar stutt og þegar húsið komst í eigu Guðríðar Árnadóttur frá Syðra-Langholti fékk það nafnið Fell sem hélst allar götur síðan.

Fell var sannkallað stórhýsi, tvílyft bárujárnsklætt timburhús. Það var um 20 metrar á lengd og breidd, portbyggt með risi, tveimur stórum kvistum á framhlið og öðrum minni á hliðum, tveimur turnum og kjallara. Árin sem það stóð voru þar ávallt bæði íbúðir og verslanir. Fyrrnefnd Guðríður rak þar fataverslun áður en hún flutti til Reykjavíkur. Eignaðist þá önnur verslunarkona Fell, hin skagfirska Guðrún Jónasson, en hún rak þar sælgætisverslun áður en hún fluttist svo líka til höfuðstaðarins. Næsti, og jafnframt seinasti eigandi Fells var Finnbjörn Finnbjörnsson, málarameistari. Starfrækti hann þar verslun í suðurhluta hússins þar sem hann seldi m.a. málningarvörur, veggfóður og gluggatjöld.

Sú verslun í Felli sem átti eftir að setja mestan svip á bæinn var þó sennilega Braunsverslunin sem lengst af var rekin í norðurhluta hússins. Þar var einkum höndlað með álnavörur og fatnað en forstjórinn, Þjóðverjinn Richard Braun, var einnig að ýmsu leyti boðberi nýrra tíma í verslunarháttum.

Má þar nefna sem dæmi að eitt árið voru flutt inn 300 pör af skíðum frá Noregi en fram til þessa höfðu öll skíði Íslendinga verið heimasmíðuð. Þótti þetta framtak mikill viðburður á sínum tíma. Er Fell þriðja húsið sem tengdist Braun og endurreist er á Selfossi, hin eru Aðalstræti 9 og Hótel Gullfoss. 

Þegar Braun hætti starfsemi fluttist í norðurhlutann verslun Leós Eyjólfssonar sem var upphaflega sérhæfður í skófatnaði og reiðtygjum en fór svo síðar að selja reiðhjól, grammófóna og hvers kyns íþróttavörur. 

Mikil mildi var að fleiri hafi ekki látist þegar eldur kviknaði í Felli árið 1946 en þar bjó þá alls 41 einstaklingur. Flestir sem björguðust um nóttina voru enn á náttklæðunum einum og þurftu sumir að stökkva út um glugga og láta sig falla niður allt að þrjár hæðir á segldúka sem slökkviliðið hélt uppi. Einn íbúanna renndi sér niður ljósastaur og annar slasaðist illa við að stökkva út án þess að lenda á segli. Reynt var að fara inn um glugga til að bjarga þeim sem enn voru inni en reyndist ógerningur. Eldurinn náði einnig að læsa sig í tvö hús á hinni hlið Hafnarstrætis, númer 4 og 6, sem einnig eyðilögðust en mannbjörg varð. Naumlega tókst að bjarga öðrum húsum í kring. Fjárhagslegt tjón var gríðarlegt en litlu sem engu náðist að bjarga af innanstokksmunum.

Atburður þessi var að sjálfsögðu mikið reiðarslag fyrir bæjarfélagið en eldsupptök voru ókunn. Lóðin þar sem þetta merkishús stóð átti eftir að standa auð í rúmlega fjörutíu ár eða allt til ársins 1988 þegar þar var byggt stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar. Glæsibyggingarinnar Fells verður þó minnst sem tákns fyrir þann drifkraft og stórhug sem einkenndi Ísfirðinga á árunum í kringum aldamótin 1900.

Heimildir:

Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir: Skutulsfjarðareyri. Húsakönnun á Ísafirði 1992-3. 1993.

Indriði Indriðason: Dagur er liðinn. Ævisaga Guðlaugs frá Rauðbarðaholti. Akureyri 1947.

Jón Þ. Þór: Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna. II. bindi. 1867-1920. Ísafjörður 1986.

Jón Þ. Þór: Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna. IV. bindi. 1921-1945. Ísafjörður 1990.

„Ægilegur eldsvoði á Ísafirði“, Skutull 6. júní 1946.

„Ægilegur húsbruni á Ísafirði“, Bæjarins besta 5. júní 1996.

Skoða fleiri hús

Selfossbíó

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Kolviðarhóll

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Oddeyri

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Ísland

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Hekla

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Borgarnes

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Akureyri

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Horngrýti og Turnhúsið

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Glasgow húsið

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Fell

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Evanger verksmiðjan

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Aðalstræti 9

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Uppsalir

Um húsið
Smella til að stækka mynd