Hótel Borgarnes

Borgarnesi, 1905-1953

[Þ]ótt umferðin sé [orðin] svo mikil um Borgarnes, á ferðafólkið hvergi höfði sínu að halla, það verður að rangla um sandinn milli húsanna, hvernig sem viðrar og fær hvorki þurrt né vott, nema ef einhver gefi því kaffi í gustukaskyni. Fólk sem þarf gistingar, leitar á næstu bæi og því er sífelld gestanauð og oft svo áskipað, að sumum verður að úthýsa. Veit ég til að menn hafa þá stundum legið úti í Borgarnesi eða í hæsta lagi fengið að liggja í vöruskemmum kaupmanna.

Þannig var ástandinu í gisti- og veitingamálum í Borgarnesi lýst í blaðinu Ingólfi haustið 1906. Aðstöðuleysið var afar bagalegt og þurftu íbúar bæjarins alloft að fæða og skjóta skjólshúsi yfir ferðamenn sem þangað komu í auknum mæli. Verslun var í vexti í bænum og nýhafnar reglulegar bátasiglingar frá Reykjavík, á þessum árum tók sá ferðamáti mun skemmri tíma en að fara landleiðina. Borgarnes var líka vinsæll áningarstaður ferðamanna á leið milli fjarlægari landshluta og því varð íbúum ljóst að eitthvað þyrfti til bragðs að taka.

Árið 1905 hófu tveir iðnaðarmenn, Kristján F. Björnsson og Þorsteinn Ólafsson, að reisa gistihúsið Borgarholt sem var tvílyft og portbyggt úr járnvörðu timbri með háu risi. Auk gistirýmis var líka myndarlegur matsalur. Þremur árum seinna var svo bætt við viðbyggingu að aftan. Var gólfflöturinn þá 160 fermetrar og húsið orðið eitt hið stærsta í bænum, rúmaði allt að 30 næturgesti. Að auki var byggt hesthús, fjós, hlöðu og salerni í einum skúr. 

Árið 1920 keypti Vigfús Guðmundsson frá Eyri í Flókadal (1890-1965) gistihúsið en á hans tíma var farið að kalla það Hótel Borgarnes. Rak hann það ásamt konu sinni Guðrúnu Björnsdóttur (1884-1922) og Birni bróður sínum. Vigfús var frumkvöðull bæði í veitingarekstri og ferðaþjónustu en hann átti m.a. þátt í stofnun Ferðaskrifstofu Íslands 1932, oftast talin sú fyrsta sinnar tegundar á landinu, og hóf einnig rekstur Hreðavatnsskála í Norðurárdal. Rekstur Hótels Borgarness gekk sæmilega þau árin sem Vigfús átti hótelið enda fjölgaði enn ferðamönnum í bænum á ofanverðum þriðja áratugnum þegar lokið var við byggingu Borgarneshafnar og brúar yfir Brákarsund.

Árið 1929 tók Daninn Hans Grönfeldt, fyrrum skólastjóri mjólkurskólans á Hvanneyri (1873-1945), við rekstri hótelsins af Vigfúsi. Hann hóf í auknum mæli að markaðssetja það fyrir Reykjavíkinga sem vildu gera sér dagamun og fara í skemmtiferðir út á land. Urðu þær sífellt vinsælli með tíðari siglingum en ekki síður batnandi vegum. Áratugum saman voru haldnir vel sóttir dansleikir öll laugardagskvöld þegar flóabáturinn Suðurlandið sigldi til Borgarness. 

Rekstur hótelsins gekk vel á stríðsárunum enda voru setuliðsmenn tíðir gestir. Oft var hins vegar skipt um eignarhald og eftir stríðslok harðnaði mjög í ári.

 Um hádegisbil 23. september 1953 tóku vegfarendur eftir að reyk lagði út um glugga á risi hótelsins. Var þetta á matmálstíma og því margt um manninn á staðnum. Fólk rauk út og komust allir ómeiddir frá eldsvoðanum. Reyndu gestir að bjarga innanstokksmunum og minntist einn íbúi bæjarins þess að hafa séð matargest halda á uppábúnu borði með hádegismat út úr brennandi húsinu. Fljótlega kom í ljós að ekkert varð ráðið við eldinn og snerist því slökkvistarfið einkum um að bjarga nærliggjandi húsum sem tókst. Reyndist lán í óláni að logn var í bænum þennan dag. Hótel Borgarnes brann hins vegar til grunna á um einni klukkustund svo að eftir stóð eingöngu strompurinn. Var þetta gríðarlegt tjón fyrir eigendur, starfsmenn og allt samfélagið en þetta var þá eina gisti- og veitingahúsið í Borgarnesi.

„Gamla“ Hótel Borgarnes hafði sannarlega gegnt mikilvægu hlutverki í sögu Borgarness á tímum örra samfélagsbreytinga og áttu margir hlýjar minningar af heimsóknum sínum þangað. Ljóst þótti að nýtt hótel þyrfti að koma í þess stað en síðan Borgarholt var byggt upp úr aldamótum hafði fjöldi bæjarbúa tvöfaldast. Með stuðningi sveitarfélags og einkaaðila var nýtt steinsteypt hús reist, framkvæmdum lauk árið 1955 og fékk það heitið Hótel Borgarnes. Er þar enn í dag rekið gistihús.

Heimildir:

Egill Ólafsson og Heiðar Lind Hansson: Bærinn við brúna. Saga Borgarness II, Borgarnes 2017.

„Hótel Borgarnes brennur til ösku“, Morgunblaðið 24. september 1949.

Sigurveig Jónsdóttir og Helga Guðrún Johnson: Það er kominn gestur. Saga ferðaþjónustu á Íslandi, Reykjavík 2014.

Skoða fleiri hús

Selfossbíó

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Kolviðarhóll

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Oddeyri

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Ísland

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Hekla

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Borgarnes

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Akureyri

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Horngrýti og Turnhúsið

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Glasgow húsið

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Fell

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Evanger verksmiðjan

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Aðalstræti 9

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Uppsalir

Um húsið
Smella til að stækka mynd