Hótel Oddeyri
Akureyri, 1905-1908
Sunnudag einn í maí árið 1885 fóru fulltrúar góðtemplara Akureyri eftirlitsferð í veitingahúsið Ólafsbauk við Strandgötu 33 á Oddeyri. Kom í ljós að grunur þeirra um brot á banni áfengislaga við drykkju á helgidögum hafði verið á rökum reistur. Sátu þar gestir og kneyfuðu bæverskan bjór eða dreyptu á toddý samfara því að þeir spiluðu billjarð þegar þeir áttu með sanni að sækja guðsþjónustu. Brotið var að sjálfsögðu kært til yfirvalda og þurfti vertinn, Ólafur Jónsson, að greiða fimm króna sekt fyrir endurtekin brot.
Tveimur árum áður hafði Ólafur (1836-98), ásamt konu sinni Valgerði Narfadóttur (1840-92) og börnum flutt til Akureyrar frá Skagaströnd þar sem þau höfðu áður stundað veitingarekstur. Bærinn var þá í miklum vexti, m.a. þökk sé stofnun Gránuverslunarinnar, og fjölgaði ört á Oddeyri þar sem byggð var tiltölulega ný; frá 1875 til 1885 hafði íbúum þar fjölgað úr 11 í 110 og árið 1890 hafði hann svo aftur tvöfaldast. Skömmu fyrir komu Ólafs hafði eini veitingastaðurinn á Oddeyri hætt starfsemi og í ljósi þess sótti Ólafur um veitingaleyfi og hlaut samþykki með því skilyrði að einnig yrði boðið upp á gistingu og hey fyrir hesta.
Til að hýsa starfsemina reisti Ólafur um sumarið 1884 tvílyft timburhús og gaf því heitið Hótel Oddeyri en í daglegu tali var það kallað Ólafsbaukur. Átti það eftir að setja mikinn svip á Oddeyrina. Orðið „baukur“ var notað um veitingahús í bænum en uppruni þess verður rakinn til beykiiðnar fyrsta veitingamanns bæjarins, Danans L.H. Jensen. Nokkrir baukar voru í bænum sem voru ávallt kenndir við eigendur sína. Milli þeirra var hörð samkeppni um hylli gesta sem stundum leiddi til þess að áfengislöggjöfinni var ekki fylgt til hins ýtrasta eins fyrr hefur verið nefnt. Reksturinn hjá Ólafi virðist líka hafa gengið vel, var þar dansað við harmonikkuspil og haldnar fjölmennar samkomur. Þannig var t.a.m. fyrsta Verkamannafélagið á Akureyri stofnað á Ólafsbauki árið 1897.
Við andlát Ólafs árið 1898 tók seinni kona hans, Anna Tómasdóttir (f. 1863, d. í Noregi), við rekstrinum. Hún var 27 árum yngri en eiginmaðurinn og hafði upphaflega ráðið sig sem vinnukonu á heimili Ólafs og Valgerðar. Anna var einkar stórhuga og færði út kvíarnar í rekstri Hótels Oddeyrar svo um munaði. Lagði hún á ráðin um að tvöfalda stærð hússins með viðbyggingum bæði að framan og aftan en sú fremri var skreytt fallegum tréútskurði sem svipar til júgendstíls. Tveir turnar voru einnig reistir framan á húsið en í umfjöllun blaðsins Norðurlands um endurbæturnar var skrifað að „nauðsynlegt“ þætti að hafa slíka turna „á öllum heldri veitingahúsum, nærri því eins sjálfsagt og á kirkjunum.“ Eftir breytingarnar var gamla húsið hart nær óþekkjanlegt. Sigtryggur Jóhannesson smiður stýrði framkvæmdum sem lauk árið 1905 og opnaði Hótel Oddeyri að nýju í einu allra glæsilegasta húsi bæjarins. Gat það nú tekið á móti allt að 60 gestum.
Ekki var heldur til sparað innandyra, þar var t.d. óvenju góð hreinlætisaðstaða og öll borð úr marmara. Lágu rafmagnsþræðir um allt húsið og öll herbergi tengd bjöllum ef gesti vanhagaði um eitthvað. Á hótelinu var jafnframt stærsti salur bæjarins, með mikilli lofthæð. Þóttu endurbæturnar á hótelinu mikið framfaraskref í gisti- og veitingarekstri Eyfirðinga.
Anna hélt leyfi til vínveitinga á Hótel Oddeyri en nú var svo komið að einungis fimm veitingahús á landinu máttu bjóða upp á áfengi enda fullt áfengisbann á landinu mikið í umræðunni og var það lögleitt
árið 1915. Voru samkomur og dansleikir tíðar en hótelið hefur líka þótt hentugt til funda, flutti Guðmundur skáld Friðjónsson frá Sandi merka fyrirlestra þar. Voru ávörp hans um ljóðskáld og ljóðlist svo vinsæl að öll salakynni hótelsins fylltust.
Því miður fengu Akureyringar og aðrir gestir ekki lengi að njóta þessarar glæsibyggingar. Hinn 18. október árið 1908 kom upp eldur að nóttu til í nærliggjandi verslun Sigurðar Fanndal. Náðu eldtungurnar fljótt að læsa sig í Hótel Oddeyri. Ekki fékkst staðfest hver eldsupptökin voru en vindlareykingar þóttu líklegasti orsakavaldurinn. Slökkvilið bæjarins fékk lítið við ráðið og brunnu bæði húsin á tveimur tímum. Blessunarlega komust allir heilir á höldnu út en litlu tókst að bjarga af innanstokksmunum. Á þessum fyrstu árum 20. aldar vor eldsvoðar afar tíðir á Akureyri en einungis tveimur árum áður höfðu t.d. fimm hús eyðilagst í stórbruna vestar á Strandgötunni.
Þrátt fyrir áfallið lagði Anna Tómasdóttir ekki árar í bát og hóf tveimur árum síðar á ný hótelrekstur í húsinu að Strandgötu 1. Það gerði hún til 1915 en ákvað þá að fella tjöld og flutti til Noregs þar sem hún bjó til æviloka. Fram til ársins 1925 var lóðin að Strandgötu 33 auð en þá var þar byggt fallegt tvílyft steinsteypuhús sem enn stendur í dag.
Heimildir:
Hótel Oddeyri, Norðurland, 11. nóvember 1905.
Jón Hjaltason: Saga Akureyrar. Fæðing nútímamannsins. 1906-1918. 3. bindi. Akureyri 2000.
Jón Hjaltason: Saga Akureyrar. Kaupstaðurinn við Pollinn. 1863-1905. 2. bindi. Akureyri 1994.
Klemens Jónsson. Saga Akureyrar. Akureyri 1948.
„Nýir húsbrunar á Akureyri“, Lögberg 26. nóvember 1908.„Úr gömlum blöðum“, Dagur 12. febrúar 1943.