Selfossbíó

Selfossi, 1944-1986

Laugardaginn 13. maí 1944 flykktust Selfyssingar og nærsveitamenn að Eyrarvegi 2. Þetta var merkisdagur í menningarlífi bæjarins því þar hafði risið myndarlegt kvikmyndahús og var öllum bæjarbúum boðið í bíó. Egill Thorarensen, aðalhvatamaður byggingarinnar, ávarpaði gesti og mælti fyrir um mikilvægi þess að geta stytt sér stundir með því að skreppa að kvöldlagi, gleyma stund og stað og horfa á lifandi myndir á hvíta tjaldinu. Fyrsta skiptið var boðið upp á bandarísku kvikmyndina Tales of Manhattan, með mörgum helstu stjörnum Hollywood líkt og Henry Fonda, Rita Hayworth, Ginger Rogers og Edward G. Robinson. 

Egill hafði stefnt saman tíu manna hlutahafahópi til að láta drauminn um kvikmyndahús fyrir Selfyssinga rætast. Einn fremsti arkitekt þjóðarinnar, Gunnlaugur Halldórsson, var fenginn til að hanna húsið sem skyldi í senn vera leikhús, bíó og veitingastaður. Veggir voru hlaðnir úr vikurholsteini,  burðarsúlur steyptar og þurfti að sækja hveravatn til Hveragerðis með bílalestum til að bæta frostþol steypunnar. Sýningasalurinn var 260 fermetrar og gat rúmað allt að 330 gesti í sæti en þá var íbúafjöldi staðarins rétt rúm 300. Út úr vesturhliðinni gekk svo bogadregin bygging, veitingahúsið eða Gildaskálinn sem tók alls 80 manns í sæti. Var mannvirkið alls 530 fermetrar. 

Sýnir þetta gjörla þann stórhug sem einkenndi framkvæmdina og því ekki að ástæðulausu að dagblaðið Vísir greindi frá með eftirfarandi fyrirsögn: „Stærsta kvikmynda- og veitingahús landsins — miðað við fólksfjölda.“ Þá ber þess að geta að á fimmta áratugnum hafði umferð um bæinn aukist mikið, með fjölmennum herstöðvum á Kaldaðarnesi og auknum vöruflutningum milli Flóa og höfuðstaðar. 

Selfossbíó fékk strax sess sem miðpunktur skemmtana- og félagslífs. Kvikmyndasýningar voru mjög vel sóttar á fyrstu árunum en þá var boðið upp á stuttmynd á undan sjálfri kvikmyndinni, oft fréttamyndir af gangi seinni heimsstyrjaldarinnar. Þá var efnt til tónleika og dansleikja um helgar þar sem Haukur Morthens var meðal fastra gesta á sviðinu. 

Síðar um sumarið 1944 festu Egill og félagar kaup á lóðinni suður af Selfossbíói og jafnframt einföld einingahús af Bandaríkjaher sem voru tengd saman í eina lengju, 6 metra breiða og 30 metra langa og því oftast nefnd Langavitleysa. Þetta varð gistiheimili með 18 herbergjum sem voru leigð til lengri og skemmri tíma. Systkinin Ingibjörg og Steingrímur Karlsbörn tóku þá Gildaskálann á leigu, byggðu þar upp veglegt mötuneyti sem var rómað fyrir glæsilegt kalt borð á sunnudögum, varð þá m.a. vinsælt meðal Reykvíkinga að bregða sér austur fyrir fjall, skella sér í bíó og fá sér svo bita á eftir í Gildaskálanum.

Næstu árin skipti nokkuð ört um rekstraraðila í veitinga- jafnt sem bíórekstri. Í ársbyrjun 1951 brann Langavitleysa til kaldra kola, bíóhúsið slapp með smávægilegar skemmdir en Gildaskálinn brann að hluta. Mannbjörg varð en Langavitleysan var ekki endurbyggð nema lítill hluti sem lá næstur Gildaskála. Árið 1951 tók Grímur E. Thorarensen, sonur Egils, við Gildaskálunum og Leifur Eyjólfsson við Selfossbíói en tveimur árum síðar réðu þar ríkjum hjónin Kristján Gíslason og Svandís Gísladóttir frá Syðri-Brú í Grímsnesi. Þau voru stórhuga athafnafólk, höfðu fengist við veitingarekstur í Reykjavík, Keflavík og Hveragerði og árið 1956 keyptu þau Selfossbíó með öllu innanstokks af gamla hlutafélaginu. Sigurður Kristiansen varð umsjónarmaður bíósalarins, oftast kallaður Siggi í bíóinu.

Þau hjón hófust handa við að breyta sýninga- og veitingasalnum og fengu Leó Árnason húsasmið til að annast framkvæmdir. Sviðið var stækkað, veggir skreyttir ljósum og myndum, nýjar sýningavélar keyptar og vesturálmunni umbreytt í hljóðfæra- og tískuverslunina Pálmann sem Þráinn sonur Kristjáns starfrækti. Kvikmyndasýningum var fjölgað og hleypt nýju lífi í skemmtidagskrá um helgar með því að bjóða erlendum hljómsveitum jafnt sem innlendum að leika fyrir dansi. 

Selfossbíó var þá helsta samkomuhús Sunnlendinga, hvort sem sneri að hvers kyns fundahöldum í aðdraganda kosninga, leiksýningum, kaupmessum og jafnvel guðsþjónustum. Sveitarstjórn hafði lengi legið undir ámæli að Selfyssingar ættu ekki félagsheimili og því festi hreppurinn kaup á bíóhúsinu í september 1960. Reksturinn var um hríð með óbreyttu sniði en með tilkomu Ríkissjónvarpsins 1966 dró hins vegar úr vinsældum kvikmyndasýninga og fækkaði þeim um helming, höfðu verið 7-8 á viku en voru oftast 4 á áttunda áratugnum. Árið 1967 hófst á ný veitingarekstur í Gildaskálanum eftir nokkurra ára hlé, þá undir skeleggri forystu Steinunnar Hafstað. Öll aðstaða þótti hins vegar erfið og illa gekk að fá leyfi fyrir að bæta húsakost því þótti þrengja að áformum um byggingu hótels. 

Árið 1980 fjaraði svo starfsemin út, bæði á hvíta tjaldinu í bíóinu sem á hvítu dúkunum í Gildaskálanum sem var rifinn niður ári síðar. Árið 1982 fékk Ungmennafélag Selfoss afnot af húsinu, bíósýningar hófust að nýju en rekstur gekk illa og lognaðist út af árið 1985. Síðasti dansleikurinn í Selfossbíó var gamlárskvöld 1985 en í febrúar 1986 skyldi það jafnað við jörðu. Lauk dagskrá með að gestir tóku undir með hljómsveitinni Lótus í laginu „Álfareiðin“ og í síðasta sinn – í bili – gullu bjöllur á heiðskírri nótt í Selfossbíó.    

Heimildir:

Guðmundur Kristinsson: Saga Selfoss. Selfossi 1991.

Vísir 20.5.1944.

Dagskrá 830. tbl. 1986.

Skoða fleiri hús

Selfossbíó

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Kolviðarhóll

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Oddeyri

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Ísland

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Hekla

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Borgarnes

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Akureyri

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Horngrýti og Turnhúsið

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Glasgow húsið

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Fell

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Evanger verksmiðjan

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Aðalstræti 9

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Uppsalir

Um húsið
Smella til að stækka mynd