Uppsalir

Reykjavík, 1903-1969

Lóðin sem liggur á horni Aðalstrætis og Túngötu í Reykjavík, lengst af Aðalstræti 18, á sér langa sögu. Þar stóð torfhús sem varð ullarstofa Innréttinganna á miðri 18. öld en það var rifið 1830 að undirlagi Davíðs Ólafssonar pakkhúsmanns til að rýma fyrir lítið timburhús. Var það nefnt Davíðshús og bjó þar meðal annars Sigurður Guðmundsson málari síðustu æviár sín. Árið 1872 eignaðist Magnús Árnason (1828-1920) húsið en hann var þá nýfluttur til Reykjavíkur frá Skagafirði ásamt fjölskyldu sinni. Magnús var lærður trésmíðameistari eða snikkari eins og það nefndist, starfaði um hríð í Danmörku og kenndi fjölda sveina í Reykjavík á langri starfsævi sinni. Var hann í eftirmælum m.a. sérstaklega rómaður fyrir að hafa smíðað „allgóða“ prentvél sem öll var úr eik að undanskyldum teinum, hjólum undir borði og fjöðrum.

Magnús og kona hans, Vigdís Ólafsdóttir, eignuðust sjö börn og hefur líklega verið býsna þröngt um þau í Davíðshúsi. Fyrst um sinn lét Magnús sér nægja að byggja bíslög en árið 1903 reif hann mannvirkin og reisti sjálfur á steinsteyptum grunni einkar veglegt, þrílyft timburhús með risi, kjallara og inngönguskúr. Fékk það heitið Uppsalir sem til forna, óháð stofnun samnefndrar sænskar borgar, var algengt heiti bæja, m.a. í heimasveit Magnúsar. Sjálfur var hann frá Stokkhólma í Skagafirði og því voru heiti sænskra borga áberandi í lífshlaupi hans. Var það skreytt snigilkröppum í klassískum stíl undir þakskeggi og með útskornum skreytingum yfir gluggum. Helsta kennileyti hússins var þó hinn sérstaki turn, skreyttur timburútskurði, sem prýddi suðvesturhorn þess.

Uppsalir voru sannkallað stórhýsi á sínum tíma og árið 1910 voru þar 25 herbergi og sex íbúðir. Auk þess fór fram innan veggja hússins alls kyns rekstur, meðal annars um tíma kvenfatabúðin Laufið, saumastofur, umboðs- og heildsala G. Nielsen, matvörubúð, lækna – og lögfræðingastofur, bókabúð Helgafellsútgáfunnar og undir lokin voru þar seld norsk Radionette sjónvörp.

Uppsala var í hugum flestra bæjarbúa einkum minnst fyrir veitingahúsið sem þar var lengi starfrækt. Að baki því stóðu dugmiklar ungar konur, frænkurnar Hólmfríður Rósenkranz úr Reykjavík (1875-1955) og Þórunn Finnsdóttir úr Kjósinni (1874-1937). Voru þær einkar samrýmdar, fóru ungar saman til náms í mat- og framleiðslu í Edinborg á tímum þegar sjaldgæft var að ungar stúlkur gerðu slíkt. Þar störfuðu þær síðan um við góðan róm í matsöluhúsi á hinni þekktu götu Princess Street og voru afar vinsælar meðal íslenskra ferðalanga. Að hvatningu fjölskyldunnar fluttu þær heim upp úr aldamótum 1900, keyptu húseignina Aðalstræti 18 og stofnuðu veitingahús undir nafninu Café Uppsalir sem þær ráku í hartnær 30 ár við miklar vinsældir. Í auglýsingu sem birtist í blaðinu Ísafold árið 1909 lofuðu þær tilvonandi gestum „sömu björtu og vistlegu herbergjunum og áður. – Þar fást flestar óáfengar veitingar og matur. – Kökur allar heimabakaðar. – Ýmis töfl og hljóðfæri til afnota“.

Café Uppsalir var m.a. vel sótt af ungum andans mönnum svo að velmegandi borgurum þótti vandi stafa af. Lýsir Tómas Guðmundsson Reykjavíkurskáld svo frá:

Við bekkjarbræðurnir, sértaklega við Halldór [Laxness] og Sigurður [Einarsson] héldum vitanlega mest hópinn. Venjulega fórum við að loknum kennslutíma niður á kaffihúsið Uppsali, sem þá var mikill samkomustaður ungra menntamanna, og stundum slógust fleiri í hópinn svo sem [Guðmundur] Hagalín og Jóhann Jónsson. Þá bar margt á góma og trúað gæti ég því, að við hefðum stundum mátt hafa eitthvað hægara um okkur. Ég man að roskinn verslunarstjóri, sem borðaði á Uppsölum, tók sig til og skrifaði stutta blaðagrein, þar sem hann bar sig upp undan okkur þessum ungu mönnum, sem gengju við broddstaf, þættust vera skáld og hefðu skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Ég býst við að þetta hafi verið eina ritgerðin sem maðurinn skrifaði um dagana…

Þó þær frænkur hættu rekstri árið 1930 hélt veitingarekstur áfram í Uppsölum. Árið 1958 má segja að brotið hafi verið blað í kaffimenningu landsins þegar kaffihúsið sem Axel Helgason rak nú í kjallaranum varð hið fyrsta til að bjóða upp á espresso að ítölskum sið. 

Um miðbik 20. aldar var steinsteypan og módernisminn leiðarþema í skipulagsmálum Reykvíkinga og húsavernd síður en svo í hávegum höfð. Árið 1962 ákváðu borgaryfirvöld að Uppsalir skyldu víkja fyrir framlengingu á Suðurgötu sem átti að verða stofnæð allt norður til gömlu hafnarinnar. Árið 1969 voru Uppsalir rifnar en þá var húsið býsna illa útlítandi sökum skorts á viðhaldi. Gömlu gólffjalirnar úr veitingastaðnum voru hins vegar svo heillegar að þær mátti endurnýta.

Ekkert varð úr áformum um framlengingu Suðurgötunnar. Á síðasta áratug 20. aldar kviknaði áhugi á að byggja þar á ný en þá fannst grunnur landnámsskála sem er nú til sýnis í kjallara Hótels Centrum. Það var byggt að hluta til í anda Uppsala og er þar í öndvegi turninn sem á ný vaktar hornið við Aðalgötu og Túngötu.

Heimildir:

„Café Uppsalir“, Ísafold 14. október 1909.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Hjörleifur Stefánsson o.fl.: Kvosin. Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur, Reykjavík 1987.

„Magnús Árnason snikkari“, Óðinn 7. árgangur, 4. blað. Reykjavík 1911.

Páll Líndal: Reykjavík. Sögustaður við Sund. A-G, Reykjavík 1986.

„Veitingastofa með nýju sniði opnuð í Aðalstræti í dag“, Tíminn 9. janúar 1958.Þorsteinn Jónsson, Reykvíkingar. Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg. 1. bindi, Reykjavík 2011.

Skoða fleiri hús

Selfossbíó

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Kolviðarhóll

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Oddeyri

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Ísland

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Hekla

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Borgarnes

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Hótel Akureyri

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Horngrýti og Turnhúsið

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Glasgow húsið

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Fell

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Evanger verksmiðjan

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Aðalstræti 9

Um húsið
Smella til að stækka mynd

Uppsalir

Um húsið
Smella til að stækka mynd